Auðmanni bjargað aftur
Jón Trausti Reynisson skrifar í DV
____________________________

Það fannst ekkert athugavert lagalega, sagði Arion banki,
þegar horft var yfir feril Ólafs Ólafssonar,
áður en 64 milljarðar voru afskrifaðir af skuldum hans.

Saga Ólafs í Samskipum er skólabókardæmi um hvernig niðurstaðan verður af uppgjörinu eftir hrunið. Ólafur er líklega þekktastur fyrir að hafa flutt inn stórstjörnuna Elton John til að spila í afmælinu sínu. Hann var næststærsti eigandi Kaupþings, sem nú heitir Arion banki. Svo lenti hann í vandræðum snemma árs 2008 því hann réð ekki við skuldirnar sínar.

Tilfellið var að Citibank í Bandaríkjunum hafði lánað honum fyrir hlutabréfum í Kaupþingi. Strangir skilmálar voru fyrir láninu. Þegar hlutabréfin í Kaupþingi höfðu lækkað í verði og Citibank ætlaði að taka þau yfir, eins og skilmálarnir kváðu á um, ákvað Kaupþing að stíga fram fyrir skjöldu og bjarga eiganda sínum. Kaupþing lét Ólaf, eiganda sinn, fá risalán svo hann gæti borgað upp lánin hjá Citibank, sem hann var ekki talinn ráða við. Áhættan var þannig færð úr erlenda bankanum yfir til íslenska bankans.

Þannig voru hagsmunirnir komnir í hring. Bankinn lánaði Ólafi til að hann gæti átt áfram hlutabréf í bankanum, því ef hann hefði ekki gert það, hefðu hlutabréfin endað á markaði og eðlilegt verð fengist á þau. Rétt og raunverulegt verð á hlutabréfum bankans hefði rústað fjárhag bankans, því hann hafði galdrað fram eignir með því að lána til kaupa á hlutabréfum í sjálfum sér. Björgun Ólafs var ein skýjahöllin í skýjaborg íslenska efnahagslífsins.

Þegar almenn vitneskja varð um að íslenska bankakerfið væri að stórum hluta byggt svona upp – að það væri án stoða – hrundi það. Það hafði aðeins haldist uppi á trúnni einni og saman. Það var tálsýn, sem haldið var uppi af innanbúðarmönnum í bankakerfinu og stjórnmálamönnum sem settu ímynd framar í forgangsröðina en raunveruleika. Þannig gat verið í lagi, eða jafnvel skylda, að halda Ólafi sem gervieiganda til að viðhalda ímyndinni um að allt væri í lagi.

Fyrri björgun Ólafs Ólafssonar var liður í stóru lyginni í íslensku efnahagslífi. Fjallað var um viðskiptafléttu Ólafs og Kaupþings í Rannsóknarskýrslu Alþingis um efnahagshrunið. Þegar hún kom út í fyrra veltu margir fyrir sér hver yrði niðurstaðan úr slíkum málum. Niðurstaðan er komin. Niðurstaðan er seinni björgun Ólafs Ólafssonar, sem tryggir honum framhaldslíf í íslenskum viðskiptum.

Arion banki, arftaki Kaupþings, hefur nú komið Ólafi Ólafssyni til bjargar á ný. Í vikunni afskrifaði bankinn 64 milljarða af skuldum hans, sem stofnað var til í þeim tilgangi að blekkja markaðinn og halda uppi hlutabréfaverði. Bankinn hefur kannað rekstur félags Ólafs, sem um ræðir, og komist að því að ekkert hafi verið athugavert, sem hægt væri að rifta. Ólafur fékk milljarða í arð fyrir hlutabréfin í bankanum, sem hann fékk að láni, og verður ekkert amast við því. Hann ræður áfram yfir milljarðaeignum og lifir vel í Sviss.

Þetta hljómar ekki siðferðislega rétt eða sanngjarnt. En bankar hafa ekki siðferði, jafnvel þótt Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra fari fram á það. Arion banki reiknaði bara út að svona myndi hann koma best út í krónutölu. Vandinn var nefnilega að Ólafur hafði gert samning við bankann sem hann átti um að hann myndi hagnast á falli krónunnar. Og krónan hrundi á sama tíma og bankinn, sem blásinn hafði verið upp af Ólafi og félögum. Samningurinn var svo góður að Arion banki treysti sér ekki í dómsmál vegna hans. Auk þess hafði bankinn ekki krafið þáverandi eiganda sinn um persónulegar ábyrgðir fyrir lánunum, eins og venjulegt fólk þarf að undirgangast.

Svona endurtekur þetta sig. Uppvakningar góðærisins rísa upp úr rústum eigin skýjaborgar og eru aftur farnir að ganga. Ekki er ólíklegt að við munum ranka við okkur eftir nokkur ár og sjá að eigendur bankanna verða margir hinir sömu og fyrir hrun. Þá geta þeir aftur farið að semja við sjálfa sig.

Sigurður G. Guðjónsson lögmaður lagði til á dögunum að embætti sérstaks saksóknara verði lagt niður. Nú í október eru hins vegar skipulögð mótmæli 99% almennings í 1.400 borgum um allan heim gegn ríkasta 1%, sem er sterklega grunað um að hafa í raun sankað að sér auði undanfarin ár með lygum, svindli og þjófnaði.Lokað er fyrir ummæli.